Sexismi:
Sjáðu.
Segðu.
Stoppaðu.
#StopSexism #MeToo
 

Sexismi er hvers kyns tjáning (hegðun, orð, mynd, látbragð) sem byggir á þeirri hugmynd að sumir einstaklingar, oftast konur, séu óæðri vegna kyns síns.

 

Sexismi er skaðlegur. Hann veldur því að einstaklingnum finnst hann einskisverður, ritskoðar sjálfan sig og hefur áhrif á hegðun og heilsufar. Sexismi er helsta orsök kynjamisréttis. Hann hefur hlutfallslega meiri áhrif á konur og stelpur.

 

Sexismi er til staðar á öllum sviðum lífsins.

 

63% blaðakvenna hafa orðið fyrir orðbundnu ofbeldi

 

Konur eyða næstum tvöfalt meiri tíma en karlar í ólaunuð heimilisstörf (OECD-lönd).

 

80% kvenna sögðust hafa staðið frammi fyrir fyrirbærinu „hrútskýring“ og „hrúttruflun“ í vinnunni*

 

Karlar standa fyrir 75% af fréttaveitum og viðfangsefnum frétta í Evrópu

 

66% aðspurðra stelpna á aldrinum 16 til 18 ára í Bretlandi upplifðu eða urðu vitni að notkun kynbundins tungumáls í skólanum

 

59% kvenna í Amsterdam greindu frá einhvers konar áreitni á götum úti

 

Í Frakklandi upplifðu 50% aðspurðra ungra kvenna nýlega óréttlæti eða niðurlægingu vegna þess að þær eru konur

 

Í Serbíu benda rannsóknir til þess að 76% kvenna í viðskiptalífinu séu ekki teknar jafn alvarlega og karlar.

 

Ofbeldi byrjar stundum með brandara

Einstök atvik sexisma kunna að virðast saklaus, en þau skapa andrúmsloft ógnar, ótta og óöryggis. Þetta leiðir til þess að ofbeldi er samþykkt, einkum gegn konum og stelpum.

 

Þess vegna hefur Evrópuráðið ákveðið að bregðast við með því að samþykkja tilmæli til að koma í veg fyrir og berjast gegn sexisma.

 
 
 

Sexismi snertir aðallega konur. Hann getur líka haft áhrif á karla og stráka þegar þeir fylgja ekki staðalímyndum um kynhlutverk.

 

Skaðleg áhrif sexisma geta verið verri fyrir sumar konur og karla vegna þjóðernisuppruna, aldurs, fötlunar, félagslegs uppruna, trúarbragða, kynvitundar, kynhneigðar eða annarra þátta.

 

Sumir hópar kvenna, til dæmis ungar konur, stjórnmálakonur, blaðakonur og opinberar persónur, eru sérstaklega skotmörk sexisma.

 
%

kvenna sem kjörnar eru á þing hafa orðið fyrir kynbundnum árásum á samfélagsmiðlum.

 

Sjáðu. Segðu. Stoppaðu.

 

Orðalag og samskipti:

Dæmi um sexisma í orðalagi og samskiptum:

Almenn notkun ræðumanns á karlkyni („hann/hans/honum“ þegar vísað er til ótilgreinds einstaklings). Forsíða á útgefnu efni sem sýnir eingöngu karla. Nafngift á konu með karlkynsheitinu yfir starfsgrein hennar. Samskiptaherferð sem felur í sér ástæðulausa nekt. Auglýsing með karli sem sýnir konu hvernig á að nota þvottavél.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Orðfæri og samskipti skipta máli vegna þess að þau gera fólk sýnilegt eða ósýnilegt og viðurkenna eða gera lítið úr framlagi þeirra til samfélagsins. Orðfærið mótar hugsun okkar og hugsunarháttur okkar hefur áhrif á gjörðir okkar. Kynblint eða óréttlátt orðfæri styrkir kynbundin viðhorf og hegðun.  

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Nota bæði kvenkyn og karlkyn þegar blandaður áhorfendahópur er ávarpaður. Fara yfir opinber samskipti til að ganga úr skugga um að þau noti kynnæmt tungumál og myndmál. Útbúa handbækur um kynnæm samskipti fyrir mismunandi markhópa. Efla rannsóknir á þessu sviði.

Fjölmiðlar, internetið og samfélagsmiðlar:

Dæmi um sexisma í fjölmiðlum, á internetinu og á samfélagsmiðlum:

Kyngerð lýsing á konum í fjölmiðlum. Sjónvarpsþáttur sem er eingöngu með körlum. Fjölmiðlar segja frá ofbeldi gegn konum þar sem þolandanum er kennt um. Blaðamenn, oftast konur, fá athugasemdir á samfélagsmiðlum um útlit þeirra í stað málanna sem þeir ræða. Netforrit senda sumar atvinnuauglýsingar eingöngu til karla vegna þess að reiknirit eru byggð upp þannig að þau stuðla að mismunun.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Kynbundin fjölmiðlaskilaboð dynja á börnum og öðrum sem verða fyrir áhrifum af þeim. Slík skilaboð takmarka þeirra eigið val í lífinu. Þau gefa til kynna að karlar séu gæslumenn þekkingar og valds og að konur séu hlutir og það sé í lagi að tjá sig opinskátt um útlit þeirra. Sexismi á netinu ýtir konum út úr netsvæðum. Sexismi á netinu getur valdið mjög raunverulegum skaða. Að úthúða eða hæðast að einhverjum á netinu býr til varanlega stafræna skrá sem hægt er að dreifa frekar og erfitt er að eyða.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Innleiða löggjöf um jafnrétti kynjanna í fjölmiðlum. Þjálfa fjölmiðla og samskiptafagfólk í kynjajafnrétti. Ganga úr skugga um að konur og karlar séu sýnd á jafnan hátt og í fjölbreyttum hlutverkum sem falla ekki undir staðalímyndir í fjölmiðlum. Koma á framfæri auglýsingum sem leika með og efla vitund á staðalímyndum kynjanna frekar en að styrkja þær. Veita þjálfun í stafrænu læsi, sérstaklega fyrir ungt fólk og börn. Skilgreina með lögum og gera refsiverða kynbundna hatursorðræðu (á netinu). Setja upp sérhæfða þjónustu til að veita ráðgjöf um hvernig eigi að bregðast við sexisma á netinu.

Á vinnustaðnum

Dæmi um sexisma á vinnustaðnum:

Sú venja að útiloka konur sem eiga börn óformlega frá atvinnumöguleikum. Að hunsa konur á fundum, eigna sér framlag þeirra eða þagga niður í þeim. Að hygla karli frekar en konu til stjórnunarstöðu með því að gera ráð fyrir að hana skorti vald. Óþarfar athugasemdir um líkamlegt útlit eða klæðaburð (sem grafa undan konum sem fagfólki). Niðrandi athugasemdir við karla sem taka að sér umönnunarhlutverk. „Hrútskýring“.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Sexismi á vinnustöðum grefur undan skilvirkni þolenda og tilfinningu þeirra um að tilheyra. Þöggun með sexisma þýðir að hugmyndir eða hæfileikar eru hunsaðir eða vannýttir. Niðurlægjandi athugasemdir búa til ógnvekjandi/þvingandi andrúmsloft fyrir þau sem standa frammi fyrir þeim og geta endað í ofbeldi/áreitni. Þolendur geta þróað með sér meiri kvíða og verið líklegri til að fá reiðiköst og þunglyndi. Almennt séð leiðir sexismi til lægri launa og færri tækifæra fyrir þau sem verða fyrir honum.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Samþykkja og innleiða hegðunarreglur sem skilgreina kynbundna hegðun og koma í veg fyrir hana með þjálfun. Koma á kvörtunarkerfi, viðurlögum og stuðningsþjónustu. Stjórnendur verða að lýsa yfir og sýna skuldbindingu til að vinna gegn sexisma.

Opinberi geirinn

Dæmi um sexisma í opinbera geiranum:

Kyngerð ummæli eða athugasemdir um útlit eða fjölskylduaðstæður stjórnmálafólks, oftast kvenna, þar á meðal innan þings. Athugasemdir starfsfólks opinberrar þjónustu um kynhneigð eða útlit notenda. Kynbundin framsetning / birting mynda af nöktum konum á opinberum vinnustöðum (t.d. í vinnuaðstöðu starfsmanna á sjúkrahúsi). Athugasemdir um útlit kvenna í almenningsrýmum, þar með talið almenningssamgöngum.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Opinbera geiranum ber skylda til að sýna gott fordæmi. Sexismi á þingi er mjög algengur en takmarkar möguleika og frelsi kvenna á þingi, hvort sem þær eru kjörnar eða starfsfólk. Sexismi grefur undan jöfnum aðgangi að opinberri þjónustu. Sexismi í almenningsrýmum takmarkar ferðafrelsi kvenna. Sexismi getur leitt til ofbeldis og skapar þvingandi umhverfi sem kemur í veg fyrir að konur, aðallega, taki fullan þátt í opinberu lífi.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Þjálfun starfsfólks. Koma á hegðunarreglum, kvörtunarkerfi, viðurlögum og stuðningsþjónustu.  Innleiða fræðsluherferðir, eins og verkfærakistur eða veggspjöld í almenningsrými sem útskýra hvað sexismi er. Stuðla að kynjajafnvægi í ákvarðanatökum. Efla rannsóknir og gagnaöflun um málefnið.

Réttarkerfið

Dæmi um sexisma í réttarkerfinu:

Dómari sem gefur í skyn við fórnarlamb kynferðisofbeldis að hún hafi „beðið um það“. Lögfræðingur gerir athugasemdir við útlit konu sem er samstarfsmaður. Lögregluþjónn sem tekur ásökunum um ofbeldi gegn konum ekki alvarlega eða gerir lítið úr þeim.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Slík hegðun getur leitt til þess að þolendur falli frá málinu. Hún skapar vantraust á réttarkerfinu. Hún getur leitt til dóma sem byggjast á röngum upplýsingum. Hún gerir lítið úr konum og getur ýtt þeim úr lögfræðistörfum.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Innleiða stefnu um jafnan aðgang kvenna að réttlæti. Þjálfa lögfræðinga og löggæslufólk. Brjóta niður staðalímyndir dómstóla með fræðsluherferðum. Ganga úr skugga um að fagfólk byggi dóma sína á staðreyndum, á hegðun gerandans og samhengi málsins frekar en klæðnaði fórnarlambsins, svo dæmi séu tekin.

Skólastarf

Dæmi um sexisma í skólastarfi:

Kennslubækur með staðalímyndum af konum/körlum, strákum/stelpum. Fjarvera kvenna sem höfunda, sögu- eða menningarpersóna í kennslubókum. Starfs- og menntunarráðgjöf sem dregur úr kjarki til að velja nám eða starf sem fer gegn staðalímyndum. Kennarar sem gera athugasemdir við útlit nemenda/samkennara. Kyngerðar athugasemdir við stelpur. Einelti samnemenda eða fagfólks í menntamálum gegn óvenjulegum nemanda. Skortur á skilningi/verklagsreglum/viðbrögðum til að takast á við slíka kynbundna hegðun.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Inntak menntunar og hegðun fagfólks í menntamálum hefur mikil áhrif á skynjun og hegðun. Andrúmsloft sexisma í námsstofnunum hefur neikvæð áhrif á árangur nemenda. Sexismi í menntun getur takmarkað framtíðarval einstaklings á starfi og lífsstíl.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Innleiða stefnur og löggjöf um jafnrétti kynjanna í skólastarfi. Fara yfir kennslubækur til að ganga úr skugga um að þær séu lausar við sexisma og að þær sýni konur jafnt sem karla í hlutverkum sem falla ekki undir staðalímyndir. Ganga úr skugga um að konur hafi fulltrúa sem vísindakonur, listakonur, íþróttakonur, leiðtogar og stjórnmálakonur í kennslubókum og námi. Kenna sögu kvenna. Ganga úr skugga um að kvörtunarkerfi séu tiltæk. Kenna kynjajafnrétti sem og kynferðisfræðslu (þar á meðal samþykki og persónuleg mörk). Þjálfa fagfólk í menntamálum í ómeðvitaðri hlutdrægni.

Menning og íþróttir

Dæmi um sexisma í menningu og íþróttum:

Íþróttakonur sýndar í fjölmiðlum samkvæmt fjölskylduhlutverki þeirra en ekki færni og styrkleika. Gera lítið úr íþróttaafrekum kvenna. Gera lítið úr körlum sem stunda „kvenlegar“ íþróttir. Konur í kynþokkafullum búningum sem „skraut“ á menningar- eða íþróttaviðburðum. Fjarvera verka eftir konur á myndlistarsýningum. Skortur á þýðingarmiklum hlutverkum fyrir konur í kvikmyndum og raunveruleg fjarvera hlutverka fyrir eldri leikkonur. Skortur á fjármagni til kvikmyndagerðar þar sem konur eru í forystuhlutverki. Ófullnægjandi úrræði fyrir kvennalist.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Bæði menning og íþróttir móta viðhorf. Ef konur og karlar eru sýnd sem staðalímyndir leiðir það til kynjastaðalímynda. Þegar aðallega karlar eru sýnilegir á þessum sviðum hefur það áhrif á hvernig litið er á konur sem hugsanlegar listakonur eða íþróttakonur og þrengir fyrirmyndir barna og ungmenna. Kynjastaðalímyndir takmarka val kvenna/karla stelpna/stráka til að stunda íþróttir sem ekki eru taldar „kvenlegar“ eða „karlmannlegar“; þetta leiðir til sjálfsritskoðunar. Á báðum sviðum leiðir sexismi til lægri launa og færri tækifæra fyrir þau sem verða fyrir honum.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Aðgerðir til að hvetja til skapandi vinnu kvenna og samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í menningar- og íþróttastefnu (styrkir, sýningar, þjálfun, útvegun rýmis/vinnustofa). Ganga úr skugga um betri og meiri umfjöllun fjölmiðla um íþróttir og list kvenna. Hvetja styrktaraðila til að styðja við listir og íþróttir kvenna. Samþykkja siðareglur til að koma í veg fyrir kynbundna hegðun, þar á meðal ákvæði um viðurlög í íþróttasamböndum. Hvetja fremstu íþrótta- og menningarpersónur til að tala gegn sexisma og hrinda í framkvæmd herferðum til að fordæma ofbeldi í íþróttum og kynbundna hatursorðræðu.

Einkalíf

Dæmi um sexisma í einkalífinu:

Konur vinna meira ólaunað (umönnunar- og heimilisstörf) en karlar, til dæmis eru það bara konur sem aðstoða við að vaska upp í matarboði. Kynbundnir brandarar á milli vina. Að bjóða stelpum/strákum markvisst upp á „kvenleg“ eða „karlmannleg“ leikföng. Strákar eru hvattir til að hlaupa og taka áhættu og stelpur til að vera þægar og hlýðnar. Notkun orðatiltækja eins og „hlaupa eins og stelpa“ eða „strákar verða alltaf strákar“.

Hvers vegna á að taka á sexisma?

Ólaunuð vinna vegur að atvinnuþátttöku kvenna, efnahagslegu sjálfstæði þeirra og þátttöku þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi. Leikföng (t.d. lítið eldhús eða smíðaleikur) hafa áhrif á kynhlutverk, en einnig framtíðarnáms- eða starfsval. Kynbundnir brandarar geta ógnað og þaggað niður í fólki og þeir gera lítið úr kynbundinni hegðun.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir sexisma?

Fræðsluaðgerðir og rannsóknir á áhrifum og skiptingu launalausrar vinnu milli kvenna og karla. Aðgerðir til að samræma einkalíf og atvinnulíf fyrir alla. Kynning á ókynbundnum leikföngum. Hvetja stráka jafnt sem stelpur til að taka þátt í heimilisstörfum. Gefa stelpum líka svigrúm og frelsi til að leika sér, kanna og vera þær sjálfar.